25.3.2009 | 20:39
Brotni kúpullinn.
Í dag átti ég erindi til Reykjavíkur. Sonur vinar míns fékk sér haglabyssu fyrir 5-6 árum, fór á eitt gæsaskytterí með félögunum og missti svo áhugann og ákvað fyrir stuttu að selja byssuna. Byssan er geymd hjá vini mínum svo ég fór heim til hans að líta á byssuna með kaup í huga. Er ég handlék gripinn, þá vildi svo óhönduglega til, að ég rak byssuhlaupið í ljósakúpul á forláta, fimmarma ljósakrónu með þeim afleiðingum að hann brotnaði. Það þyrmdi yfir mig og vin minn, sem stóð álengdar, hvítur sem nár. Hann og kona hans höfðu nýlega sett upp ljósakrónuna, sem hafði upphaflega verið í eigu ömmu hennar. Nú voru góð ráð dýr. Í huga mínum var ég kominn til Kaupmannahafnar að þræða forngripaverslanir og eftir nokkrar mjög langar mínúntur sagði ég við vin minn: Ég bjarga þessu, hvað sem það kostar.
Við ákváðum að segja konu hans ekki alveg strax frá atvikinu og er ég kom út undir bert loft, þá ákvað ég að tala við hana Önnu í Fríðu frænku. Hjá henni fæst bókstaflega allt milli himins og jarðar og er þangað kom, þá hafði hún brugðið sér frá og var ekki væntanleg fyrr en eftir hálftíma. Ég ákvað að ganga um Grjótaþorpið og dreifa huganum; ég vissi svo sem vel, að líkurnar á að finna einn alveg eins kúpul og þann, sem ég hafði brotið, voru hverfandi. Er ég sneri aftur í búðina, allur með hugann í Köben, þá var Anna nýkomin og ég bar upp erindi mitt. Frekar var brúnin þung á Önnu en niður í kjallara fórum við og út úr afgömlum skáp einum dró hún fram nokkra rykfallna ljósakúpla. Einn þeirra sýndist mér vera eins og sá er brotnaði og fékk ég að skjótast með hann til vinar míns. Það var einsog við manninn mælt, kúpullinn var nákvæmlega eins og sjaldan á ævinni hefur mér liðið eins vel. Þvílíkur léttir og þvílík hamingja.
Ég þarf ekki að orðlengja um byssukaupin. Það varð ekkert af þeim.
Athugasemdir
Ég hélt fyrst að þú hefði skotið kúpulinn fyrir gæs... en skemmtileg saga með hamingjusömum endi... væri hægt að gera stuttmynd eftir þessari sögu þar sem þú lékir sjálfan þig...
Brattur, 25.3.2009 kl. 20:45
Þú kannt greinilega ekkert með byssur að fara.
En þvílík tilviljun að þú fannst annan eins ! Ég hef bara sjaldan heyrt annað eins.
Anna Einarsdóttir, 25.3.2009 kl. 20:49
Þetta bar til með fáránlegum hætti - það var sem tekið væri í öxl mér og mér snúið í hálfhring með fyrrgreindum afleiðingum. Nokkuð ljós, að þessi byssa átti ekki að komast í mínar hendur :)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 25.3.2009 kl. 20:50
Fyrir fróðleiksþyrsta - Remington 870 Express pumpa...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 25.3.2009 kl. 20:51
Og þetta er líka falleg ljósakróna! Skemmtileg saga.
Margrét Sigurðardóttir, 26.3.2009 kl. 03:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.